Raunverulegt afl framtíðarsýnar leysist ekki úr læðingi nema flestir aðilar fyrirtækis hafi sameiginlegan skilning á markmiðum hennar og stefnu. Ef illa hefur verið staðið að málum við þá þætti sem hér að framan eru nefndir í breytingastjórnun er hætta á að miðlun framtíðarsýnar mistakist. Það markmið að fá jafnvel tugi þúsunda manna til að skilja og samþykkja tilgreinda framtíðarsýn er gríðarlega stórt og ögrandi viðfangsefni. Oft fara hundruðir klukkustunda af vinnu þeirra er þróa framtíðarsýn í að safna upplýsingum, greina þær, íhuga möguleika og að lokum að velja úr þeim. Á seinni stigum breytingaferlis þurfa allir aðrir hagsmunaaðilar að fá stóran hluta þeirra upplýsinga sem lágu til grundvallar ákvörðunartöku um framtíðarsýn. Þeir spyrja sjálfa sig þeirra sjálfsögðu spurninga hvaða áhrif þetta hafi á þeirra tilvist og vina þeirra o.s.frv. Flestum reynist bæði erfitt að láta af fyrra hegðunarmynstri og hætta að íhuga aðra framtíðarmöguleika en framtíðarsýnin býður upp á, sætta sig þó við fórnirnar, fara að treysta öðrum o.s.frv. Breytingaleiðtogar þurfa á þessu stigi ferlisins að gæta þess mjög að hafa skilaboðin skýr og augljós því sá tími og sú orka sem fer í virka miðlun breytingasýnar er í réttu hlutfalli við einfaldleika skilaboðanna. Fyrir utan einfaldleika leggur Kotter mikla áherslu á myndlíkingar og að koma skilaboðunum á framfæri á sem margbreytilegastan máta. Sem dæmi um miðlunarmöguleika nefnir hann stóra hópfundi, minnismiða, blaðaútgáfu, tölvupóst og óformleg samtöl við starfsmenn. Hins vegar er mjög mikilvægt að gæta að kostnaði við miðlun því öllu má ofgera og finna þarf hinn gullna meðalveg á þessu sviði eins og fleirum. Til að inngreypa merkingu og skilning í huga fólks telur hann einnig sífellda endurtekningu skilaboða og leiðbeinandi hegðun leiðtoga vera mjög mikilvæga þætti. Með þessu móti síast innihald framtíðarsýnarinnar inn í huga fólks og verður hluti af nýjum veruleika þeirra. Mjög mikilvægt er að breytingaleiðtogar sýni sjálfir í verki þá hegðun sem þeir ætlast til af öðrum því fólk metur aðgerðir meira en orðin tóm. Að lokum nefnir Kotter mikilvægan þátt við miðlun framtíðarsýnar sem snýst um tvíhliða samskipti og réttmæta gagnrýni og bendir hann á að framtíðarsýnina þurfi að laga til og endurbæta. Við miðlun má reikna með að fram komi agnúar sem betra er að sníða af og leiðrétta stefnu skútunnar heldur en að sigla í ranga átt eða í átt sem aðrir vilja ekki sigla. Reikna má með að því fleiri sem eru virkjaðir því meiri líkur séu á góðum árangri við breytingastjórnun. Um þetta fjallar næsta skref í ferli Kotters.