Engu máli skiptir hversu björt framtíðarsýnin er og hversu mikla trú starfsmenn hafa á henni ef mjög langur tími líður áður en nokkur árangur kemur í ljós. Allt breytingaferlið kallar á mjög mikla vinnu mjög margra aðila og drifkraftur áframhaldandi einsetningar að settu marki er að uppskera árangur erfiðis síns. Skammtímasigrar eru leiðarvísar á vegi fólks að settu marki. Þeir eru vitnisburður um að öll vinnan sé erfiðisins virði og trú starfsfólks og vinnugleði helst í hámarki. Dæmi um slíka sigra gætu verið lækkun kostnaðar framleiðsludeildar innan árs, endurbætur vinnuferlis sem verða fljótlega sýnilegar og endurskipulagning sem miðar að því að bæta starfsanda innan eins vinnuhóps. Einkenni góðra skammtímasigra eru að þeir eru vel sýnilegir, þeir eru óvéfengjanlegir og þeir eru auðraktir til breytingaaðgerðanna. Samkvæmt Kotter auðvelda skammtímasigrar til við umbreytingar á marga vegu. Þeir eru sönnun þess að fórnirnar borguðu sig, verðlauna breytingaleiðtoga með klappi á bakið, hjálpa til við að fínstilla framtíðarsýn og stefnumótun og einnig draga þeir kraftinn úr þeim sem barist hafa gegn breytingum. Hins vegar koma skammtímasigrarnir ekki af sjálfu sér eða sem heppni. Þeir eru skipulagðir og tímasettir þannig að réttir hlutir gerist á réttum tíma og skili þannig tilætluðum árangri sem er að mestu leyti aukinn drifkraftur til áframhaldandi stefnu að settu langtímamarkmiði. Skammtímasigrarnir eru á verkefnaborði stjórnenda sem annast að mestu leyti stjórnun nútímans og nánustu framtíðar þar sem leiðtoginn aftur á móti tekst á við langtímastjórnun fyrirtækisins. Fylgifiskur skammtímasigra er aukin pressa á starfsfólk sem getur verið hjálpleg m.a. til að auka skynjaða þörf fyrir breytingar. Í árangursríkum breytingaferlum tengja yfirmenn aukna pressu við skynjaða þörf fyrir breytingar með sífelldri samtengingu og tilvitnun í mótaða framtíðarsýn og stefnumörkun. Þannig hjálpar hver þáttur öðrum í öllu ferlinu. Hins vegar er einnig hætt við að aukin pressa skapi eingöngu aukna spennu og jafnvel örmögnun starfsmanna og þá er betra heima setið en af stað farið því tilgangurinn er alltaf að efla dug og dáð en ekki að draga mátt úr starfsmönnum. Segja má að megintilgangur þeirra aðgerðahluta breytingastjórnunar sem ræddir hafa verið hér að framan sé að byggja upp nægilegan skriðþunga til að brjóta niður veggi andstæðra afla innan fyrirtækisins. Ef einhverju þessara skrefa er sleppt er öllu ferlinu steypt í voða.