“Það mun byrja að rigna eftir fáeinar mínútur. Ættum við kannski að færa okkur og setjast undir stóra eplatréð? Þannig munum við ekki blotna og við getum fengið okkur fersk epli.” Framangreint er setning úr bók Kotters Leading change og er dæmi um framtíðarsýn. Framtíðarsýn er myndræn framsetning framtíðarinnar þar sem bent er á hvers vegna fólk ætti að hafa áhuga á þátttöku í sköpun slíkrar framtíðar. Í dæminu hér að framan eru eplin hvetjandi fyrir fólkið og gott er að losna við að blotna. Við stjórnun breytinga er skilgreining stefnunnar mjög mikilvæg því oftar en ekki er fólk ósammála um stefnuna eða er ekki sannfært um hvort breytinga er raunverulega þörf. Þegar framtíðarsýn hefur verið mótuð er hún gott hjálpartæki fyrir fólk í breytingaferli. Framtíðarsýnin er leiðbeinandi um alla hegðun starfsmanna og má sem dæmi nefna að vakni efi um ákvena aðgerð er gott að skoða hvort hún passar við framtíðarsýn fyrirtækisins. Vel mótuð framtíðarsýn auðveldar breytingar með því að kveikja áhuga einstakra starfsmanna á aðgerðum sem virðast vera andsnúnar skammtímahagsmunum þeirra. Hún bendir á að fórna sé þörf en skýrir út að þessar fórnir muni skila sér margfalt til baka miðað við þá framtíð sem við blasi ef ekki er gripið til aðgerða. Skýr framtíðarsýn hjálpar stjórnendum sem og öðrum starfsmönnum að átta sig á hvaða hegðun er viðeigandi við mismunandi aðstæður. Eins og Kotter segir þá þarf framtíðarsýn ekki að vera mjög flókin og er raunar stór kostur að hafa hana einfalda, a.m.k. að hluta til, þannig að skilaboðin séu skýr og auðskilin. Hann bendir á að afgerandi breytingar nái ekki fram að ganga án góðrar framtíðarsýnar, hversu skipulegar aðgerðirnar eru og vel stjórnað. Samkvæmt Kotter þarf árangursrík framtíðarsýn að vera lýsandi (myndræn), áhugaverð (epli), raunhæf, einbeitt, sveigjanleg og auðskýrð. Mikilvægið er slíkt að takist mönnum að skapa framtíðarsýn samkvæmt forskriftinni hér að framan og þar á ofan að hún höfði til flestra hagsmunaaðila fyrirtækisins er augljóst mál að skapað hefur verið stórkostlegt áhald í verkfærakistu breytingastjórans. Framtíðarsýnin er aðeins nægilega sterkt stjórntæki ef hún býður öllum hagsmunaaðilum upp á mjög bætta stöðu í framtíðinni og hún má alls ekki vekja þá tilfinningu að einn hópur hagnist á kostnað annars. Hún er gagnslaus ef aðeins er boðið upp á mjög takmarkaðan ábata sem og ef hún er með óraunhæfar væntingar sem augljóst er að ekki náist. Ekki er nægilegt að bregða upp mynd af bjartri framtíð heldur þarf skilvirk framtíðarsýn einnig að benda mönnum á leiðir að markmiðinu. Til að framtíðarsýn sé framkvæmanleg þarf hún að hafa fótfestu í skýrum og röklegum skilningi á fyrirtækinu, markaðsumhverfi þess og samkeppnilegri stöðu. Þó svo framtíðarsýnin sé leiðbeinandi fyrir starfsfólk þarf hún að vera nægilega sveigjanleg til að geta fallið að mismunandi og breytilegum aðstæðum. Einfaldleiki er einnig nauðsynlegur kostur framtíðarsýnar því ef hún er það flókin að ómögulegt er að skýra hana út fyrir fjölda aðila missir hún marks. Við myndun framtíðarsýnar er þörf bæði hugar og hjarta. Hún er langt í frá að vera einfalt verkefni og gera þarf ráð fyrir því að hún muni taka töluverðan tíma og hópur fólks komi að henni. Kotter bendir á að óskilvirk framtíðarsýn geti verið verri en engin. Næsta skref felst í því að miðla framtíðarsýninni til allra hlutaðeigandi aðila.