Eins og nafnið umbreytingaforysta (e. transformational leadership) gefur til kynna er megin viðfangsefni hennar ferli sem breytir og umbreytir einstaklingum. Við þá breytingavinnu er gengið út frá lífsgildum þátttakenda, siðferði, stöðluðum viðmiðunum og langtíma markmiðum. Með beitingu umbreytingaforystu er hvöt fylgjenda metin, hversu vel þörfum þeirra er fullnægt og á allan máta tekið fullt tillit til persónuleika þeirra og mannlegrar reisnar. Ferli þetta samsamar náðarvald leiðtogans (e. charismatic leadership) og forystu sem byggir á framtíðarsýn skipulagsheildarinnar. Einstaklingurinn hefur mikil tengsl við aðra og myndar sambönd sem hækka stig hvatningar og samhyggðar hjá bæði leiðtoganum og fylgjandanum. Af framangreindu má sjá að þessi tegund forystu beinir athyglinni að persónulegum viðmiðunum fylgjenda og reynir að aðstoða þá við að ná fram öllu því sem í þeim býr og fara jafnvel fram úr væntingum þeirra. Við beitingu umbreytingaforystu innan skipulagsheildar keppir leiðtoginn að því að breyta gildum og viðmiðum hennar í þá átt að allir sem hlut eiga að máli skynji betur endurspeglun sanngirni og réttlætis.
Leiðtogi sem byggir forystu sína á náðarvaldi beitir heillandi framkomu sem hefur sérstök persónuleg áhrif á fylgjendur hans. Persónuleg einkenni slíks leiðtoga eru þau helst að hann er stjórnsamur, hefur mikla þörf til að hafa áhrif á aðra, er sjálfsöruggur og hefur sterka tilfinningu fyrir eigin siðferðisgildum. Einnig felst í allri hans hegðun skýr fyrirmynd að trú þeirri og þeim gildum sem hann vill að fylgjendur tileinki sér. Leiðtogi sem byggir á náðarvaldi er í augum fylgjendi sinna samkeppnislega mjög hæfur og setur fram hugmyndafræðileg markmið sem hafa siðferðislegan yfirtón. Einnig miðlar hann háum væntingum til fylgjenda og þeir hafa fulla trú á getu hans til að uppfylla væntingar. Einnig hvetja slíkir leiðtogar til verkefnatengdrar þátttöku hjá fylgjendum, sem getur fólgist í auknum tengslum, valdi og virðingu.
Bein afleiðing náðarvaldsforystu er traust fylgjenda á hugmyndafræði leiðtogans, samrýmanleiki milli trúar fylgjenda og leiðtoga, óvéfengjanlegt samþykki á leiðtoganum, túlkun hlýju í hans garð og hlýðni fylgjenda Auk þess finna þeir sterk tengsl við leiðtogann, tilfinningaleg tengsl við markmið hans, aukin markmið fyrir fylgjendur og fullvissu um að markmið náist. Virkni slíkrar forystu er mjög mikil því hún tengir saman fylgjendur og myndbirtingu þeirra af því fyrir hvað fyrirtækið stendur. Með tilkomu þessarar nálgunar er athyglinni beint í auknum mæli að þörfum fylgjenda í stað leiðtoga. Hún hvetur þá til að gera meira en vænst er af þeim með því að hækka stig meðvitundar þeirra fyrir mikilvægi og gildi sérgreindra og hugmyndafræðilegra markmiða. Einnig fær hún fylgjendur til að fara fram úr eigin áhugahvötum vegna hópsins eða skipulagsheildarinnar og stuðlar að hækkun þarfastigs þeirra.
Viðfangsefni umbreytingaforystu er frammistaða starfsmanna sem og þróun fylgjenda að endimörkum getu þeirra. Einstaklingar sem ástunda umbreytingaforystu búa oft yfir sterkum þætti innri gilda og hugmyndafræði og þeir eru virkir í að hvetja fylgjendur til að bregðast við á þann máta að viðbrögðin styðji heildina frekar en að þeir hafi eigin hagsmuni eingöngu að leiðarljósi. Umbreytingaforysta er siðferðislega örfandi og það sem helst aðgreinir hana frá öðrum nálgunum að forystu er að hún leggur áherslu á að forysta hafi siðferðislegar víddir. Umbreytingaleiðtogar taka á forystu sem ferli sem spilar milli leiðtoga og fylgjenda og þarfir annarra eru í öndvegi hjá þeim. Augljóst má vera að hugmyndir um umbreytingaforystu hafna því að líta á nauðungarnotendur valds sem leiðtoga.
Við skoðun náðarvalds er augljóst mál að handhafar slíks valds eru handhafar öflugs stjórntækis. Það styður leiðtoga við innleiðingu framtíðarsýnar, auðveldar samsömun gilda og viðmiða starfsmanna og skipulagsheildarinnar og svo mætti áfram telja. Eins og ég lít á leiðtogann tel ég að náðarvald sé nauðsynlegt skilyrði hvers einstaklings sem tekur að sér leiðtogahlutverk. Hins vegar er það alls ekki nægjanlegt skilyrði því margt annað þarf til að koma svo vel sé.