„Konur eru betri stjórnendur en karlar“
Mikið hefur verið rætt og ritað um mismunandi stjórnunarstíla karla og kvenna og hafa ýmsar skoðanir verið viðraðar. Í greiningu sem tók til meira en 160 rannsókna á kynjamismun í leiðtogastíl fannst aðeins einn mismunur í rannsóknunum sem unnar voru í skipulagsheildum: Konur nota meiri þátttöku og lýðræðislegri stíl og minna valdslegan eða stýrandi stíl en karlar. Ýmsir hafa bent á kynjamismun í heimssýn, félagsþroska og í lífsreynslu en samt hafa konur og karlar náð svipuðum árangri sem leiðtogar. Margt bendir til þess að kynin séu misjafnt metin, sem aftur á móti getur haft áhrif á stjórnunarlega þjálfun, verkniðurröðun og skipun lærimeista.
Greiningar og einstaklingsrannsóknir styðja samt nokkrar niðurstöður um mun milli karl- og kvenleiðtoga. Þó svo konur séu frekar líkar körlum í hegðun og árangri virðast þær vera meira á þátttöku- og valddreyfingarlínu, en það er mynstur sem á vel við nú á tímum. Sérstaða kvenna felst meðal annars í því að þær hafa þroskað með sér innsæi – eða huglægt mat, sem byggir á reynslu, tilfinningum og aðstæðum fremur en beinum mælanlegum staðreyndum. Hlutverk stjórnandans í framtíðinni verður að skapa hlýlegt og hvetjandi umhverfi þar sem hlúð er að persónulegum þroska einstaklingsins. Ef karlmenn vilja halda stöðu sinni á vinnumarkaðnum væri þeim hollara að kynna sér stjórnunarstíl kvenna.
Hins vegar er mikil einföldun að halda því fram að fólk passi inn í annan hvorn hópinn og eingöngu kynferði ráði því hvernig leiðtogi viðkomandi er. Einnig er mjög villandi að ætla að allir innan sama hópsins (miðað við tvískiptingu) styðjist við sama stjórnunarstílinn. Rannsóknir hafa ekki sýnt marktækan mun á stjórnunarstíl karla og kvenna. Stjórnunarstíll er einstaklingsbundinn en ekki kynjabundinn.
„Hugtakið vald er nátengt hugtakinu leiðtogi“
Til eru margar tegundir valds. Nefna má umbunarvald, þvingunarvald, lögmætt vald, persónuvald og sérfræðivald. Einnig geta einstaklingar í skipulagsheildum haft vald án þess að hafa nokkurt umboð til að beita því. Vald snertir fólk innan skipulagsheilda hvað varðar ákvarðanir þess, hegðun og umhverfi. Vald er það sem endanlega ræður því hvernig hagsmunaárekstur er leystur og hver fær hvað, hvenær og hvernig. Vald getur annars vegar snúist um formlega stjórnun sem virkar þá sem stýring starfsmanna í átt að yfirlýstu markmiði. Hins vegar er um að ræða óformlegt vald sem virkar sem stýring starfsmanna í átt að óformlegum markmiðum.
Hlutverk leiðtoga er meðal annars að hrífa starfsmenn með sér með eldmóð og krafti til að setja stefnuna á fjarlæga framtíðarsýn. Til að ná þessu markmiði þarf leiðtoginn vissulega á valdi að halda. Samkvæmt lýsingunni hér að framan er þó um að ræða óformlegt vald. Vel getur verið að leiðtoginn búi einnig yfir formlegu valdi, en í meginhlutverki hans gagnast það ekkert ef hið óformlega vantar. Nauðungarvald snýst um að fá einstakling til að gera eitthvað í krafti formlegs valds sem honum er á móti skapi. Beiti leiðtogi nauðungarvaldi vinnur það gegn lokamarkmiðum hans og líklegt að hann verði ekki í hlutverki leiðtoga til lengri tíma litið. Hins vegar er beiting valds ekki alltaf sjáanleg og er oft svo um náðarvald. Leiðtogi þarf að fara vel með vald sitt, hvort sem það er formlegt eða óformlegt og beita frekar fyrir sig bjartri og raunsannri framtíðarsýn sem hvetur starfsmenn áfram og lofar betri tíð.